Hin séríslenska leið

Þann 25. Janúar síðastliðinn rakst ég á grein á mbl sem bar fyrirsögnina “Vill afhúða gullhúðað regluverk”.

Í þessari ágætu grein er komið inn á það sem virðist vera orðin árátta í íslenskum stjórnmálum sem er að gullhúða allt sem ESB leggur til, en með gullhúðun er oftast átt við að ganga mun lengra en ESB reglur leggja til.

Hugtakið gullhúðun á þó sennilega í fáum tilfellum, jafnvel engum, eins vel við og í vopnalagafrumvarpi því er nú liggur fyrir alþingi. Í frumvarpi þessu er gengið mun harðar fram en vopnalög ESB segja til um. Þar að auki er þetta vopnalagafrumvarp mikið strangara í flestum atriðum en á nokkru af hinum norðurlöndunum. Vopnalög á hinum norðurlöndunum eru ekki eins í öllum smáatriðum en grunnurinn nokkuð til sá sami og hafa norðurlöndin því í dag samræmt sín vopnalög í flestu því sem ESB lög kveða á um og eru ekki að ganga lengra en þau lög kveða á um. Þá hefur stefnan þar verið að horfa til meiri samræmingar á milli landanna sem og að samræma lög landanna við regluverk ESB á þessu sviði. Það verður líka að horfa til þess að ESB hefur lýst yfir vilja til þess að einfalda sitt regluverk á þessu sviði til að íþyngja ekki um of þeim sem afla sér skotvopna með lögmætum hætti sem og þeim sem stunda verslun eða framleiðslu á þessu sviði, það sama er upp á teningnum í Svíþjóð.

Með þeim vopnalögum sem hér eru boðuð í frumvarpi dómsmálaráðherra er verið að ganga í þver öfuga átt og þrengja lög sem fyrir voru þau ströngustu á norðurlöndunum og mun strangari en ESB.

Þrátt fyrir að sitjandi dómsmálaráðherra, sem leggur þetta frumvarp fram, hafi fengið það í arf frá forvera sínum í embætti er grátbroslegt að ráðherrann skuli láta hafa eftir sér á mbl þann 29.12.2023 að við getum ekki verið með séríslenska framkvæmd og er þar haft eftir dómsmálaráðherra að hún tali fyrir því að unnið sé með sambærilegum hætti hér á landi og gert er í löndunum í kringum okkur. Það verður ekki með nokkru móti séð að þetta verklag sé í heiðri haft þegar kemur að því vopnalagafrumvarpi sem hún sjálf lagði fyrir alþingi og er dómsmálaráðherra þar með að ganga í berhögg við eigin yfirlýsingar.

Ef við skoðum nánar þau “rök” sem fram koma í greinargerð umrædds frumvarps er tekið til þess að 20 einstaklingar hafi átt samtals 161 sjálf- og hálfsjálfvirka byssu, er þá væntanlega verið að tala um þá 20 einstaklinga sem flestar slíkar byssur eiga, og er þessu slegið fram sem einni ástæðu þess að banna þurfi innflutning. Ef þessari 161 byssu er deilt jafnt niður á þessa 20 einstaklinga þá eru það einungis 8 byssur á hvern og einn sem telst alls ekki mikið á alþjóðlegan mælikvarða. Til samanburðar má nefna að í Noregi er fyrsta heimild til vopnasafns 25 stk og hægt að fá hækkað um 25 stk í einu upp að 100 stk sem er hámark þar í landi. En þetta er kannski líka eitt þeirra atriða sem sýnir að þeir sem að frumvarpinu standa hafa ekki þekkingu þegar kemur að söfnun.

Í greinargerð frumvarpsins er farið mikinn um þann fjölda safnvopna sem flutt hafa verið til landsins á árunum 2018-2021. Hér verður að hafa í huga að ekki voru veittar innflutningsheimildir fyrr en eftir úrskurð innanríkisráðherra árið 2015 um að heimila skyldi slíkan innflutning. Það gefur því auga leið að það hlaut að koma snarpur kippur í innflutningi því áhugi á söfnun var fyrir hendi í töluverðum mæli en framboð ekkert, það var sem sagt mikil uppsöfnuð eftirspurn fyrir hendi og öruggt má telja að eftirspurn mundi minnka verulega á fáeinum árum, markaðurinn mundi einfaldlega ná ákveðnu jafnvægi. Hér er vert að minna á að samkvæmt lögum þarf Ríkislögreglustjóri að samþykkja alla safnara og setur þeim ákveðnar kröfur og tekur út það húsnæði þar sem varðveisla vopnanna verður.

Í nefndaráliti allsherjar og menntamálanefndar, 989 nefndarálit, segir m.a. Þar sem fjallað er um bann við innflutningi safnvopna, “þá telur meirihlutinn jafnframt nauðsynlegt að bregðast við þeim ábendingum sem fram koma í áhættumatsgreiningu ríkislögreglustjóra frá 2019 um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi og ábendingum í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 um fjölgun slíkra vopna”

Hvert er eiginlega verið að fara með þessum málflutningi ? Hvernig tengjast löglega fengin og löglega skráð safnvopn skipulagðri brotastarfsemi ? Það verður ekki annað séð af þessum orðum en verið sé að bendla safnara við skipulagða brotastarfsemi, sem er víðsfjarri veruleikanum. Hér er augljóst að verið að slá ryki í augu þeirra sem ekki þekkja til í því skyni einu að afla frumvarpinu fylgis.

En þetta er ekki einsdæmi, hinir ýmsu fjölmiðlar hafa verið duglegir að reka mikinn hræðsluáróður gagnvart safnvopnum og öðrum byssum án þess þó að setja sig í samband við helstu hagsmunaaðilana á Íslandi og afla sér þekkingar og upplýsinga. Safnvopn hafa ítrekað verið dregin inn í mál sem eru af allt öðrum toga og safnvopn hafa ekki komið við sögu á nokkurn hátt. Það má líklega segja að þetta hafi náð ákveðnu hámarki í einum þætti af Kveik á RUV sem gerður var um málefnið. Hér er vert að minnast greinar á Vísi undir yfirskriftinni “180 vélbyssur í einkaeigu hér á landi og lang flestar virkar”. Í grein þessari er rætt við Jónas Hafsteinsson sem lengi starfaði á leyfadeild lögreglunnar og segir meðal annars í þessari umfjöllun “Lögregla hefur ekki sérstakar áhyggjur af þessari fjölgun enda sæta handhafar vopnanna þröngum skilyrðum á grundvelli safnaraleyfs. Þeir þurfa að hafa haft skotvopnaleyfi í að minnsta kosti fimm ár og hafa yfir að ráða fullnægjandi aðstöðu til varðveislu vopnanna” Þetta er nokkuð sem vert er að hafa í huga í þessari umræðu.

Það hefur líka verið farið mikinn í fjölmiðlum um að hér á landi séu 650 vélbyssur í einkaeigu, skoðum þetta aðeins nánar! Í morgunblaðinu þann 2.6.2023 er grein með yfirskriftinni “Skotvopn skotfæri og búnaður fyrir 336 milljónir” og er þar fjallað um þann búnað sem lögregla þurfti að kaupa vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins, en þar segir m.a. um tilkynningu Ríkislögreglustjóra “Skotvopnin sem voru keypt voru helst Glock skammbyssur og hálfsjálfvirkar MP5 byssur, þá er ítrekað að ekki sé um að ræða hríðskotabyssur”Af þessu má ráða að ef lögregla á sjálfvirka MP5 þá er það hríðskotabyssa. Ef hinsvegar einstaklingur ætti sjálfvirka MP5, hvort væri það þá vélbyssa eða hríðskotabyssa? Ef við myndum nota skilgreiningu ríkislögreglustjóra úr þessari tilkynningu þá væri yfirgnæfandi meirihlutinn af þessum 650 “vélbyssum” orðinn hríðskotabyssur sem er hreint ekki eins skelfilegt og hentar því ekki til að hrella almenning upp úr skónum svo allt klabbið er sett undir vélbyssur. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er skilgreiningin sú að hríðskotabyssur nota sömu skot og skammbyssur meðan vélbyssur nota sömu skot og rifflar og eru miklu öflugri en skammbyssuskot. Eins og hér að ofan sést virðist fólk sem er að fjalla um þessi mál oft ekki hafa þekkingu til þess og gefa sér hugmyndir um hvernig hlutir eru og hvernig þeir virka.

Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á orð dómsmálaráðherra í framsöguræðu með títtnefndu frumvarpi, í þeirri ræðu segir dómsmálaráðherra Frá og með árinu 2024 verða hálfsjálfvirk vopn bönnuð í Noregi og enginn má eiga slík vopn þrátt fyrir að hafa keypt þau löglega fyrir þann tíma”

Við eftirgrennslan hjá skotklúbbi í Noregi, þar sem keppt er með hálfsjálfvirkum skammbyssum, könnuðust þeir ekki við neitt viðlíka bann og það sama var uppi á teningnum hjá yfirvöldum þar í landi. Af þessu verður ekki annað séð en dómsmálaráðherra hafi hallað réttu máli í pontu alþingis, hvort heldur það var af ásetningi eður ei, getur annað því ekki talist eðlilegt en ráðherra skýri hvaðan hún hefur þessar upplýsingar.

Í áhugaverðu viðtali þingmann einn sem birtist fyrir skemmstu á einhverjum netmiðli kvað þingmaðurinn “ráðherra rikisstjórnarinnar stjórnast af tilfinningasemi og ótta”.Þótt málefnið hafi verið eitthvað annað eiga þessi orð þingmannsins ekki síður við varðandi áður nefnt vopnalagafrumvarp þar sem augljóst er að ótti og tilfinnningasemi ráða ferðinni þegar horft er til algers innflutningsbanns á safnvopnum eins og boðað er með þessum nýju lögum.

Í þennan sama streng tekur ekki ómerkari einstaklingur en dósent í lögreglufræðum við HA í Kastljós þætti, en þar var umræðu efnið nátengt eða rannsóknarheimildir um skotvopn, og segir dósentinn “mikilvægt að við föllum ekki í þá gryfju að telja skerðingar á frelsi vera einu leiðina til þess að tryggja öryggi almennings” og bætir við “við eigum ekki að taka mikilvægar ákvarðanir þegar við erum hrædd eða óttaslegin” Það er ekki annað hægt en taka undir orð þessara tveggja einstaklinga því að í stjórnsýslunni ætti að horfa á rök og reynslu að leiðarljósi fremur en tilfinningasemi og ótta. Rökin fyrir áður nefndu innflutningsbanni eru hins vegar lítt sjáanleg þar sem safnvopn hafa ekki verið til nokkurra vandræða í samfélaginu, að minnsta kosti ekki svo okkur söfnurum sé kunnugt um, og virðist því “hvað ef-isminn” hafa fengið að ráða för í dómsmálráðuneytinu.

Stjórn Gunnloga