Það er okkur í stjórn félagsins ánægjuefni að tilkynna að náðst hefur samkomulag við Öryggismiðstöðina um sérstök kjör til félagsmanna í Gunnloga á öryggiskerfum, en allt stefnir jú í að við safnarar munum þurfa að hafa kerfi tengd stjórnstöð eftir að ný vopnalög voru samþykkt.
Ítarlegri upplýsingar um þau kjör sem okkur eru boðin verða send félagsmönnum á tölvupósti um komandi helgi.
Brynjar Már, einn af okkar félagsmönnum, hefur haft veg og vanda að þessu samkomulagi við Öryggismiðstöðina og þökkum við honum kærlega fyrir vel unnið starf í þágu félagsins.
Nú er ljóst að nokkur fjöldi okkar er með sín eigin öryggiskerfi í rekstri og jafnvel með myndavélavöktun, sem menn eru kannski ekki tilbúnir að afleggja. Af þessu tilefni fór undirritaður og ræddi við tæknimann hjá Öryggismiðstöðinni um hvort einhver vandkvæði væri með að keyra slík kerfi samhliða kerfi frá öryggismiðstöðinni og taldi hann ekkert vera því til fyrirstöðu.
Fh stjórnar.
Garðar Tryggvason