Til umhugsunar fyrir kjördag.
Nú styttist mjög hratt í kosningar en þær ber að með minni fyrirvara en vanalegt er.
Það er því ekki seinna vænna að rýna aðeins í málin áður en stigið er inn í kjörklefann. Eins og all flestum skotvopnaeigendum landsins er væntanlega ljóst þá voru samþykkt ný vopnalög á alþingi á þessu ári, eða kannski meira að þá var tjaslað einhverju sem á að heita plástrar á gömlu lögin. Ég held að við, skotvopnaeigendur, séum flest allir sammála um að þessi lög eru meingölluð sem og öll framkvæmdin í kringum þau.
Gerð frumvarps.
Við skulum byrja á að skoða fæðingu frumvarpsins sem var grunnur þessara vopnalaga.
Vinna við þetta frumvarp hófst í dómsmálaráðuneytinu undir stjórn þáverandi dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar. Dómsmálaráðuneytinu til fulltingis við gerð frumvarpsins voru til kallaðir aðilar frá nokkrum af lögreglustjóra embættum landsins en ekkert samráð né samtal átti sér stað við hagsmunaaðila á þessum vetvangi, hvorki Skotvís, Skotíþróttasamband Íslands, skotíþróttafélögin í landinu né heldur Gunnloga, félag byssusafnara, ALLIR þessir aðilar voru sniðgengnir.
Vinnubrögð sem þessi eru með öllu ólíðandi og maður hlýtur að spurja sig hvert heilbrigt lýðræði sé komið þegar löggjafarvaldið er hreinlega farið að fela framkvæmdarvaldinu einu og sér að semja lögin eins og hér er gert. En því miður er það víst svo að sumir valdhafar og embættismenn standa í þeirri trú að þeir séu í starfi sínu til að hafa vit fyrir lýðnum meðan hið sanna er að þeir er kjörnir, eða ráðnir, til að framkvæma vilja lýðsins og er þetta nokkuð sem virðist þurfa að minna ráðamenn á af og til enda leggur daun valdhroka og þekkingarleysis af þessu frumvarpi.
Frumvarpið lagt fram.
Það er svo áðurnefndur Dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, sem leggur frumvarpið fram og eðli málsins samkvæmt fer það í samráðsgátt eftir umræðu á þingi. Það vakti verulega athygli margra að tíminn sem gefinn var í samráðsgátt var óeðlilega skammur eða ein vika sem er um þriðjungur þess tíma sem almennt gerist og bendir það til Þess eins að troða hafi átt frumvarinu í gegnum þingið án þess að hagsmunaaðilum gæfist tóm til andmæla, enda slíkt í anda þáverandi dómsmálráðherra. En þetta gekk ekki að óskum og bárust margar vel ígrundaðar og vel rökstuddar umsagnir á þessum fáu dögum.
Það var ekki fyrr en hér var komið við sögu og ljóst að mikil andstaða var við mörg atriði frumvarpsins að eitthvað er rætt við hagsmunaaðila, sem sagt það var gert út úr neyð og kom lítið út úr því samtali eins og við var að búast.
Nýr ráðherra.
Frumvarpið náði ekki fram að ganga í tíð Jóns Gunnarssonar sem dómsmálaráðherra og kom það því í hlut arftaka hans í embætti að leggja frumvarpið fram á næsta þingi, en Jóni hafði þá verið skipt út fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttir og leggur hún frumvarpið fram að nýju, en þá er búið að skafa af því sárustu vitleysurnar eins og þann óframkvæmanlega gjörnig að ætlast til að öll skotfæri væru skráð í skotvopnaskírteini. Það að einhverjum skyldi detta í huga að setja þann póst inn í upphaflega frumvarpið lýsir vel því algera þekkingarleysi sem réði för við gerð frumvarpsins.
Laug dómsmálaráðherra viljandi?
Þegar Guðrún Hafsteinsdóttir, nú dómsmálaráðherra, leggur frumvarpið fram að nýju heldur hún framsöguræðu, eins og gengur og gerist, en í ræðu þessari segir hún meðal annars ”Frá og með árinu 2024 verða öll hálfsjálfvirk skotvopn bönnuð í Noregi hvort sem þeirra hefur verið aflað löglega fyrir þann tíma eða ekki”. Þessi orð dómsmálráðherrans voru þvættingurinn einn hvor heldur þau voru sögð til að slá ryki í augu þingheims og þjóðar m.ö.o. hrein og klár lýgi eða dómsmálráðherra var hreinlega ekki betur að sér um málefnið, en því getur Guðrún ein svarað. Hvort heldur sem var þá er ljóst að ráðherran hallaði alvarlega réttu máli í pontu alþingis.
Við nánari eftirgrenslan kom á daginn að einu breytingar sem fyrirliggjandi voru á norskum vopnalögum voru að færa tvær gerði hálfsjálfvirkra riffla úr veiðiflokki í íþróttaflokk, það má nefnilega nota hálfsjálfvirka riffla bæði til veiða og íþróttaiðkunar í noregi.
Frumvarpið verður að lögum.
Það endar jú þannig að frumvarp þetta verður að lögum og samþykktu 40 þingmenn það, einn sat hjá og 22 voru fjarverandi. Ég man ekki hvað við töldum frasann ”nánar skilgreint í reglugerð ráðherra” á mörgum stöðum í frumvarpinu og er það enn eitt dæmið um kunnáttu og ráðaleysið sem réði för við gerð frumvarpsins. Það er vægast sagt dapurleg stjórnsýsla að þurfa að klína inn svona lausnum þegar þekkingin er komin á endastöð.
Ég skora á alla sem geta klórað sig fram úr norsku að lesa norsku vopnalögin og telja hvað þeir finna svona ”nánar skilgreint í reglugerð ráðherra” oft í þeim. Málið er nefnilega að norsku vopnalögin eru, ólíkt þeim íslensku, skrifuð af þekkingu, fagmennsku og sanngirni og þá þarf ekki að bjarga sér fyrir horn með svona skítreddingum. Þess má svo geta að fyrir fáeinum vikum var ekkert af þessum reglugerðum ráðherra búinar að líta dagsins ljós þó langt sé um liðið síðan frumvarpið varð að lögum.
Kjördagur.
Það er ágætt að hafa þetta ferli, sem hér hefur verið rakið, í huga þegar við göngum til kosninga í nóvember lok og spurja okkur: Er þetta sú stjórnsýsla sem við viljum sjá í framtíðinni?
Við þá sem ennþá geta hugsað sér að kjósa þá flokka sem stóðu að baki þessu frumvarpi vil ég segja það sama og Kristrún samfylkingarforingi sagði um Dag B: Það má strika frambjóðendur út af kjörseðlunum og ”Jónar og Gunnur” eru í öllum kjördæmum (t.d. suðurkjördæmi og suðvesturkjördæmi).
Við skotvopnaleyfishafar erum um þrjátiu þúsund og hver sá sem hefur skotvopnaleyfi hefur eðli málsins samkvæmt kosningarétt. Við viljum hér með skora á alla þá sem treysta sér til að mæta á framboðsfundi að gera slíkt og viðra sínar hliðar á þessu máli við frambjóðendur.
Í því tilliti er gott að renna yfir þann samanburð sem Skotvís, Gunnlogi og Bogveiðifélagið gerðu á vopnalögum norðurlandanna og fleiri landa og sjá hvesu mikið hallar á okkur hérlendis í þeim samanburði.
Þá er hér að neðan listi yfir hvernig þingmenn greiddu atkvæði þegar rumvarpið varð að lögum.
Lifið heil.
Stjórn Gunnloga
Sjálfstæðisflokkur.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir: já
Ásmundur Friðriksson: já
Berglind Ósk Guðmundsdóttir: já
Birgir Ármannsson: já
Birgir Þórarinsson: fjarverandi
Bjarni Benediktsson: fjarverandi
Diljá Mist Einarsdóttir: fjarverandi
Guðlaugur Þór Þórðarson: fjarverandi
Guðrún Hafsteinsdóttir: já
Hildur Sverrisdóttir: já
Jón Gunnarsson: já,
Njáll Trausti Friðbertsson: já
Óli Björn Kárason: já
Vilhjálmur Árnason: fjarverandi
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir: fjarverandi
Sigþrúður Ármann: já
Guðrún Sigríður Ágústsdóttir: já
Vinstri Græn.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir: fjarverandi
Brynhildur Björnsdóttir: já
Guðmundur Ingi Guðbrandsson: já
Katrín Jakobsdóttir: já
Orri Páll Jóhannsson: fjarverandi
Kári Gautason: já
Steinunn Þóra Árnadóttir: já
Framsókn.
Ágúst Bjarni Garðarsson: já
Ásmundur Einar Daðason: já
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir: fjarverandi
Halla Signý Kristjánsdóttir: já
Ingibjörg Isaksen: fjarverandi
Jóhann Friðrik Friðriksson: fjarverandi
Lilja Alfreðsdóttir: fjarverandi
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir: já
Líneik Anna Sævarsdóttir: já
Sigurður Ingi Jóhannsson: fjarverandi
Stefán Vagn Stefánsson: já
Willum Þór Þórsson: já
Þórarinn Ingi Pétursson: já
Píratar.
Andrés Ingi Jónsson: já
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir: já
Björn Leví Gunnarsson: já
Gísli Rafn Ólafsson: já
Halldóra Mogensen: fjarvist
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir: já
Samfylkingin.
Dagbjört Hákonardóttir: já
Kristrún Frostadóttir: fjarverandi
Logi Einarsson: já
Guðmundur Andri Thorsson: já
Inger Erla Thomsen: já
Magnús Árni Skjöld Magnússon: já
Miðflokkurinn.
Bergþór Ólason: greiðir ekki atkvæði
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: fjarverandi
Flokkur fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir: já
Eyjólfur Ármannsson: já
Guðmundur Ingi Kristinsson: fjarverandi
Inga Sæland: já
Tómas A. Tómasson: já
Utan þingflokka
Bjarni Jónsson: já
Jakob Frímann Magnússon: fjarverandi
Viðreisn
Guðbrandur Einarsson: fjarverandi
Hanna Katrín Friðriksson: fjarverandi
Sigmar Guðmundsson: já
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: fjarverandi
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: fjarverandi