Lög Gunnloga

I. kafli – Heiti félagsins, heimili og markmið

1. grein

Nafn félagsin skal vera Gunnlogi, heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein

Tilgangur félagsins er að standa vörð um hagsmuni og réttindi áhugamanna um sögu og söfnun á vopnum og öðrum minjum sem hafa söfnunargildi vegna aldurs, tengsla við sögulega atburði

eða af öðrum ástæðum teljast hafa sérstakt sagnfræðilegt gildi.

3. grein

Markmið félagsins er að:

  • 3.1 Standa vörð um hagsmuni og réttindi áhugamanna um söfnun og vörslu safnvopna á Íslandi með því að taka þátt í umræðu og umfjöllun um málefnið.
  • 3.2 Stuðla að útgáfustarfsemi og almennri fræðslu um málefni sem snerta eign safnvopna, sögu þeirra og almennan fróðleik um sögu vopna.
  • 3.3 Eiga samvinnu við önnur félög og samtök, innlend og erlend, sem hafa málefni tengd vopnum eða safnvopnum á stefnuskrám sínum.
  • 3.4 Stuðla að bættri almennri þekkingu á málefninu.
  • 3.5 Eiga samvinnu við önnur félög og opinbera aðila um setningu laga og reglugerða um eign og meðferð safnvopna.

II. kafli – Félagar 

4. grein

Félagar geta orðið þeir einstaklingar er játast undir lög og siðareglur félagsins.

Fullgildir félagar teljast þeir félagar er hafa greitt árgjöldin og eru skuldlausir við félagið. Skuldi félagsmaður árgjald lengur en eitt ár, telst hann ekki lengur fullgildur félagi og nýtur ekki réttinda sem slíkur. 

Félaga er skylt að tilkynna félaginu nýtt eða breytt netfang sitt. 

Gerist félagsmaður brotlegur við lög félagsins eða siðareglur getur stjórn félagsins veitt honum áminningu eða vikið honum úr félaginu. Skal stjórnin tilkynna honum það skriflega og geta ástæðna fyrir úrskurði sínum. Fallist viðkomandi ekki á málsmeðferð stjórnar getur hann skotið máli sínu fyrir félagsfund sem fellir endanlegan úrskurð í málinu og ræður einfaldur meirihluti úrslitum.

Stjórnin getur hafnað umsókn um félagsaðild ef það er samdóma álit hennar að hætta sé á að umsækjandi geti valdið félaginu og markmiðum þess tjóni.

5. grein

Verði meðlimur 67 ára fyrir aðalfund félagsins og hafi hann jafnframt verið félagi í Gunnloga í a.m.k. 5 ár skal hann teljast ævifélagi og borgar ekki félagsgjöld upp frá því. Ævifélagi hefur sömu réttindi og skyldur og aðrir félagar.

  6. grein

Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af eignum félagsins, þótt hann hverfi úr félaginu eða félaginu verði slitið.

Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en gjöldum sínum.  

III. kafli – Stjórn félagsins

7. grein

Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, og einum meðstjórnanda. Einnig skal kjörinn einn varamaður. Formaður og varaformaður skulu kjörnir sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

8. grein

Formaður og varaformaður skulu kosnir til eins árs í senn, en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára.

9. grein

Stjórnarmenn skulu kosnir beinni kosningu úr röðum félaga á aðalfundi ár hvert.

10. grein

Stjórn félagsins ræður málefnum þess milli aðalfunda. Stjórnarfundur telst löglegur ef meirihluti stjórnar er mættur. Stjórnarfundur tekur ákvörðun um daglega starfsemi og ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Stjórnin getur skuldbundið félagið með meirihlutaákvörðun stjórnarfundar, innan ramma fjárhagsáætlana og er undirskrift formanns (varaformanns í forföllum formanns) ásamt gjaldkera nægileg staðfesting þess. 

Stjórn félagsins eða fulltrúar á vegum hennar koma fram fyrir hönd félagsins í viðræðum við stjórnvöld og aðra aðila innlenda sem erlenda og gætir hagsmuna félagsmanna. 

Komi upp mál sem rúmast ekki innan samþykktar fjárhagsáætlunar getur stjórnin leitað samþykkis félagsfundar. 

Gerðir stjórnar og samþykktir skulu bókaðar.

11. grein

Félagsfundur telst löglegur sé til hans boðað á netfangalista og öðrum vefmiðlum félagsins. Minnst 1/10 hluti atkvæðisbærra félagsmanna getur krafist þess að félagsfundur verði haldinn.

IV. kafli – Aðalfundur

12. grein

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað.

Senda skal út fundarboð í það minnsta 30 dögum fyrir aðalfund og dagskrá eigi síður en 10 dögum fyrir fundardag. 

13. grein

Aðalfund skal halda fyrir 15. mars ár hvert. Til hans skal boðað með áberandi hætti á vefmiðlum og netfangalistum félagsins með minnst tveggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi með málsfrelsi, tillögurétt og kjörgengi í stjórn eiga gildir félagar. 

Félagsmenn í aðildarfélögum eiga rétt til setu á fundinum og þau réttindi sem mælt er fyrir um í samstarfssamningi félaganna. Einnig getur aðalfundur leyft áheyrnarfulltrúum að sitja fundinn og skal seta áheyrnarfulltrúa borin upp eftir kosningu fundarstjóra og fundarritara.

14. grein

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi félagsins:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Lagðir fram skoðaðir reikningar félagsins.
  3. Lagabreytingar.
  4. Ákvörðun félagsgjalda næsta almanaksárs.
  5. Kosning formanns, varaformanns og stjórnar, auk varamanns.
  6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
  7. Önnur mál.

15. grein

Lögum félagins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Tillögur að lagabreytingum skulu hafa borist stjórninni fyrir 15. febrúar ár hvert og skulu auglýstar í fundarboði. Ekki má greiða atkvæði um aðrar tillögur um lagabreytingar en þær sem auglýstar eru í fundarboði. Til þess að lagabreytingar öðlist samþykki þarf tvo þriðju hluta greiddra atkvæða fundarmanna.

16. grein

Atkvæði ¾ hluta félagsmanna á aðalfundi þarf til þess að leggja félagið niður, enda hafi tillaga um það verið á dagskrá fundar sem sérstakt málefni. Skulu allar eignir félagsins þá renna til þeirra góðgerðamála sem fundurinn ákveður.

17. grein

Aukaaðalafund skal halda ef meirihluti stjórnar telur nauðsynlegt eða ef meirihluti fundarmanna samþykir á félagsfundi. Skal boðað til slíks fundar með að minnsta kosti 10 daga fyrirvara. Hefur fundurinn sama vald og aðalfundur enda sé fundarefni tilgreint í fundarboði.